Fara á efnissvæði

RAI mat á öllum íbúum Hlíðar og Lögmannshlíðar

Þrisvar sinnum á ári gerum við svokallað RAI mat á öllum íbúum Hlíðar og Lögmannshlíðar. Niðurstöður gæðavísa úr síðasta mati sýna góðan árangur hjá Heilsuvernd Hjúkrunarheimili. 

RAI niðurstöður mars til maí 2024

Þrisvar sinnum á ári gerum við svokallað RAI mat á öllum íbúum Hlíðar og Lögmannshlíðar. Matið er gert þrisvar sinnum á ári fyrir þá íbúa sem eru í hjúkrunarrými og er um að ræða um 400 hundruð spurninga allt frá fjölda tanna til sjúkdómsgreininga, sjálfbjargargetu, lyfja, áhugamála og fleira. Úr verður gagnagrunnur sem við notum til að meta hjúkrunarþyngd íbúa sem og kerfi til að mæla gæði á hjúkrunarheimilum á Íslandi. Hjúkrunarfræðingar svara stórum hluta spurninganna en einnig koma iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar og læknar að matinu. 


Að hverju tímabili loknu köllum við fram skýrslur þar sem við rýnum í okkar niðurstöður, bæði til að sjá hvað gengur vel og ekki síður til að sjá hvar eru tækifæri til að gera betur. 


Síðasta tímabil var frá 1. mars til 31. maí og á því tímabili var hjúkrunarþyngdin hjá okkur metin 1,3 en er 1,22 á landsvísu. Það liggja flóknir útreikningar að baki þessum tölum og raðast íbúarnir í mismunandi flokka eftir virkni (sjúkra- og iðjuþjálfun), heilsufari, andlegu ástandi, hjúkrunarverkum og fleira. Tæplega 80% íbúa Heilsuverndar Hjúkrunarheimilis eru í flokknum sérstök endurhæfing og sjáum við að flotta starfið sem unnið er í sjúkra- og iðjuþjálfun er að skila sér vel.


Kerfið mælir einnig svokallaða gæðavísa og hefur hver gæðavísir ákveðin viðmið og eru þeir litakóðaðir eftir þeim viðmiðum. Miðað er við tvær línur, ef gæðavísirinn fer yfir rauðu línuna telst hann ekki fullnægjandi, undir grænu línunni telst mjög góður gæðavísir og milli grænu og rauðu línunnar eru góðir gæðavísar. Hér má sjá dæmi um hvernig niðurstöður eru settar fram.

Í heildina erum við að koma mjög vel út í gæðavísunum, aðeins einn gæðavísir fer yfir rauðu línuna og erum við að sjá framfarir í mörgum gæðavísum frá undanförnum tímabilum. 
 

Einnig er athyglisvert að skoða tölur varðandi dvalartíma en meðal dvalartími okkar íbúa er hálfu ári styttri en á landsvísu, 1,82 ár samanborið við 2,36 ár á landsvísu. Lang stærsti hluti okkar íbúa hefur dvalið styttra en tvö ár en þó hafa þrír íbúar búið hér lengur en 9 ár. 

Hægt er að fylgjast með niðurstöðum gæðaviðmiða (ekki hjúkrunarþyngdar þó) á RAI mælaborði sem Landlæknir heldur utan um.

Þar er hægt að sjá niðurstöður allra hjúkrunarheimila á Íslandi, bera saman mismunandi gæðavísa og skoða út frá fleiri breytum eins og landshluta og kyni. Mælum með því að þið kynnið ykkur það efni ef þið hafið áhuga á.