Fara á efnissvæði

Óvissuferð karlaklúbbsins á Hlíð

Á Hlíð er starfræktur karlaklúbbur sem hittist einu sinni í viku ásamt starfsmönnum úr iðju- og félagsstarfinu. Þar er spjallað, fræðst og gætt sér á ýmsu góðgæti úr mötuneytinu.

Nú á mánudaginn héldu þeir í óvissuferð, ferðasagan þeirra er hér að neðan og er augljóst að ferðin var virkilega vel heppnuð:

Það voru sjö galvaskir herramenn sem mættu spenntir í anddyrið kl. 13, sólin skein og Maggi kokkur var búinn að nesta okkur.  

SBA kom með frábæran bíl sem er útbúinn öllum þægindum fyrir menn í hjólastólum.  

Fyrsta stopp var í Skógarböðunum, þar sem hægt var að keyra alveg að húsinu. Ekki var þó farið ofan í heldur kom framkvæmdastjórinn Kjartan Sigurðsson til okkur í rútuna og fræddi okkur um böðin og tilvonandi hótelbyggingu.  

Því næst var haldið áfram á austubakkanum og keyrt fram hjá Fosslandi, þar sem Bergur átti heima og Öngulstöðum, en Steingrímur er með tengsl þangað. Svo var keyrt niður að Stór- Hamri, þar sem Bogi bjó og skoðaðar breytingar og byggingar.  

Þá var haldið áfram og keyrt fram hjá Helgastöðum, Hríshólum og alla leið að Saurbær. 

Þar fengum við yndislegar móttökur frá félögum í Búsögu - Búnaðarsögusafni Eyjafjarðarsveitar. 

Það var formaðurinn Sigurður Steingrímsson ásamt Jósavin Arasyni og Jóhanni Tryggvasyni sem tóku á móti okkar. Við fengum fræðslu og leiðsögn. Margir traktórar á safninu voru í eigu eða notkun á árum áður hjá félögum karlaklúbbsins og vakti það mikla lukku og rifjaði upp minningar. Á safninu gæddum við okkur á veitingunum sem Maggi og eldhúsgengið hafði sent okkur með.  

Á heimleið var margt að sjá, margar nýjar byggingar í sveitinni, meðal annars í Hólshúsum, þar sem verið er að reisa reiðhöll. Valur Ásmundsson tók á móti okkur en því miður var engin tími til að fara út til að skoða en hann bauð okkur hjartanlega velkomin aftur til sín.   

Komið var heim í Hlíð um klukkan 17, allir alsælir og þreyttir eftir daginn. 

Myndir frá ferðinni er hægt að skoða hér.